top of page
skagalif.JPG

Á Akranesi búa um 7400 manns. Þar er fjölbreytt menningarlíf og Akranes státar einnig af einstaklega góðri aðstöðu til útivistar og ýmiss konar afþreyingar. Akraneskaupstaður heldur úti upplýsingavefnum Skagalíf þar sem upplýsingum um viðburði og afþreyingu á Akranesi er miðlað.

Langisandur

  • Langisandur er um kílómetra löng strandlengja sem hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki í daglegu lífi bæjarbúa. Þaðan er frábært útsýni yfir Faxaflóa og góð aðstaða til sjósunds og annarrar útivistar.
     

  • Hægt er að komast niður á Langasand á fjórum stöðum: við Faxabraut, Jaðarsbraut, Íþróttamiðstöðina Jaðarsbökkum og frá Sólmundarhöfða.
     

  • Góður göngustígur liggur meðfram sandinum og við hann eru útisturtur, salerni og Guðlaugin góða sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir forvitna ferðalanga.

Guðlaug

  • Guðlaug er uppsteypt laugarmannvirki staðsett í brimvarnargarðinum á Langasandi, fyrir neðan áhorfendastúkuna á Jaðarsbökkum.
     

  • Guðlaug er á þremur hæðum. Á þeirri efstu, næst stúkunni, er útsýnispallur. Á miðhæð er setlaug og sturtur og á neðstu hæð er grunn vaðlaug.  Á milli hæða liggja tröppur sem einnig mynda tengingu milli bakkans og fjörunnar þannig að eldhugar geta dýft sér í sjóinn og yljað sér í heitri lauginni á eftir.
     

  • Undir áhorfendastúkunni er aðstaða til að hafa fataskipti og hengja af sér. Guðlaug var opnuð í nóvember 2018 og hefur notið mikilla vinsælda bæði meðal Skagamanna og gesta en skólahópar og sjósundsfólk hafa mikið sótt í þessa frábæru aðstöðu allt frá opnun.
     

  • Utan venjulegs opnunartíma er hægt að taka á móti hópum eftir samkomulagi.

Breiðin

  • Breiðin er syðsti hluti Akraness. Á árum áður var þar þurrkuð skreið og saltfiskur lagður til þerris á klöppunum en nú er svæðið vinsælt til útivistar.
     

  • Á Breið er að finna einn elsta steinsteypta vita landsins en hann var reistur 1918. Akranesviti var svo reistur á árunum 1943-1944 og hefur hann síðustu ár verið opinn almenningi.
     

  • Akranesviti hefur notið mikillar vinsældar síðustu ár, sér í lagi vegna ægifagurs útsýnis í allar áttir, auðugs fuglalífs og ekki spillir fyrir að Hilmar vitavörður er höfðingi heim að sækja.
     

  • Utan almenns opnunartíma er hægt að taka á móti hópum í Akranesvita eftir samkomulagi og bjóða upp á fræðslu, tónlist eða léttar veitingar svo eitthvað sé nefnt.

bottom of page